Lísa, Lotta og Pornopia
Ég var um daginn að fletta upp stelpnabókaseríunni Rauðu bækurnar, sem Bókfellsútgáfan gaf út á árunum 1945-1956 (bækur eins og Aldís elst af systrunum sex, Dísa siglir um suðurhöf og svo auðvitað Lísa eða Lotta, sem er sennilega sú eina sem einhverjir kannast enn við), í Gegni áðan og sá þá að á 8. áratugnum hafði komið út önnur sería sem hét Rauðu bækurnar (og reyndar ein enn hjá Setbergi á 7. tugnum en í þeirri kom aldrei nema ein bók).
En ég þykist sjá á bókatitlunum að seinni serían hafi ekkert átt skylt við hina. Útgefandinn var Toppforlagið og bækurnar hétu Taktu mig: ef þú getur, Fríða Fríða (eftir Erotikus), Kynæði, Gálurnar: veðreiða- og kynsvall og sú síðasta (1975) hét Pornopia leggst á bakið: þorparar og kynlíf á Spáni.
Ég las nú sumar af stelpnabókunum en þessi seinni sería hefur alveg farið framhjá mér.