Útrunninn Bónuskjúklingur
Ég kom við í Bónus í dag og keypti tvo pakka af kjúklingafilletum til að grilla; er að fá fjölskylduna í mat.
Svp þegar ég ætlaði að fara að marínera kjúklinginn áðan í sataysósu og opnaði annan pakkann gaus upp hin versta fýla. Ég leit á dagstimpilinn og brá í brún: pökkunardagur 15. júlí, siðasti neysludagur 21. júlí. Hinn pakkinn var aftur á móti nýr og rann ekki út fyrr en 3. ágúst. Ég er vön að líta á dagsetningar á öllum kjötvörum en líklega hef ég í þetta skipti litið tvisvar á þann sem var í lagi.
Ég skundaði niður í Bónus og spurði eina kassastelpuna (mikið að gera, langar raðir) hvert ég ætti að snúa mér. Hún sagði mér að tala við verslunarstjóra, sem væri annaðhvort inni á skrifstofu eða einhversstaðar í búðinni. Allt í lagi með það, mér fannst líka sjálfsagt að verslunarstjóri vissi af því að þarna væri verið að selja svona hressilega útrunna viðkvæma vöru.
Ég gekk að skrifstofunni og bankaði á dyrnar. Ekkert svar svo að ég rölti fram og aftur um búðina og skimaði eftir einhverri verslunarstjóralegri manneskju en sá enga. Að lokum rakst ég á stelpu sem var að raða grænmeti og spurði hvort hún vissi um verslunarstjórann. Nei, hún vissi ekkert en hann (eða hún, náði því ekki) var annaðhvort á skrifstofunni eða einhversstaðar í búðinni.
Ég labbaði aftur að skrifstofunni og barði. Ekkert svar. Leitaði aftur fram og aftur um búðina og sá engan verslunarstjóra. Sá að lokum annan starfsmann og spurði um verslunarstjórann en fékk svarið ,,I don't know." Svo að ég gafst upp, fór í röð, komst á endanum að kassanum, sagði kassastelpunni (þeirri sömu) frá árangurslausri verslunarstjóraleitinni og spurði hvort hún gæti ekki bara endurgreitt mér kjúklinginn.
Þá kom náttúrlega upp úr dúrnum að það gat hún alveg. Ég fékk peningana en enga afsökunarbeiðni eða neitt, þótt þetta hefði kostað mig meira en hálftíma vesen.
Ég hefði átt að fara í Nóatún eins og ég var upphaflega að plana.