Steikarkúnstir
Það var verið að spyrja mig hvernig ég steikti nautakjötssneiðar eins og ég var með mynd af hér í gær. Það er nú eiginlega minnsta mál í heimi. Sjálfsagt hefur hver sína sérvisku við það en þetta er það sem mér finnst best að gera:
Hafa kjötið við stofuhita (taka það úr kæli með 20-30 mínútna fyrirvara) og þerra það með eldhúspappír ef yfirborðið er rakt. - Já, og ef það skyldi vera vakúmpakkað er best að taka umbúðirnar af með góðum fyrirvara. Á gott nautakjöt þarf ekki annað krydd en nýmalaðan pipar og gott salt en það er ekkert bannað að nota annað. En ekki minnsta þörf á að marínera.
Forhita pönnuna vel en samt ekki of mikið, það á ekki alveg að rjúka af henni – en ef lítið snark heyrist þegar kjötið er sett á hana er hún alls ekki nógu heit. Nota litla olíu eða pensla bara kjötið með olíu.
Steikingartíminn er smekksatriði en prime rib-sneiðin sem ég steikti í gær og var ca. 2,5 cm þykk var steikt í um 4 mínútur á hvorri hlið; hitinn lækkaður aðeins eftir svona 3 mínútur. Ekki stinga í steikina með gaffli þegar henni er snúið.
Svo þegar hún er tekin af pönnunni þarf hún að bíða í allavega 5 mínútur. Má sko alveg vera lengur. Best að breiða álpappír lauslega yfir og svo er safinn sem rennur úr henni meðan hún bíður notaður í sósuna.
Ef hún er skorin áður en hún er borin fram er best að hnífurinn sé sem beittastur og renni gegnum meyrt kjötið eins og smjör. Og það er mjög gott að hita diskana dálítið.
Annað var það nú ekki.