Steik og lýsingarorð
Þetta var bara hreint ekkert vont. Held ég fái alveg ágætis steikarsalat á morgun.
Annars fór ég að velta einu fyrir mér þegar ég var búin að skrifa þetta: Ég hafði ekki almennilega áttað mig á því hvað ég er mikið fyrir úrdrátt þegar ég skrifa um eitthvað sem ég hef eldað. Segi oftast að þetta hafi ekki verið vont eða í mesta lagi að það hafi verið nokkuð gott bara eða alveg ljómandi ágætt eða eitthvað svoleiðis. Aðrir segja gjarna að það sem þeir elda hafi verið frábærlega gott eða himneskt eða best af öllu eða dásamlegt. - Ekki misskilja, ég er síður en svo að setja út á það. Bara að velta því fyrir mér af hverju mér er nánast fyrirmunað að taka svona til orða um eitthvað sem ég hef gert.
Það er allavega ekki vegna þess að ég geti ekki skrifað þannig texta, er með áratuga reynslu af að skrifa baksíðutexta og auglýsingatexta og heyrði af manni um daginn sem hafði lesið slíkan texta saminn af mér og lét þau orð falla að hann dáðist mikið af fólki sem gæti notað svona mikið af lýsingarorðum ...