Étinn matur og látnir hundar
Ég var að velta fyrir mér muninum á mönnum og dýrum. Alltsvo nánar tiltekið þessu með að éta og borða, drepast og deyja.
Sumir eru afskaplega fastheldnir á þetta og verða ægilega hneykslaðir ef þeir sjá einhversstaðar getið um að maður éti eða dýr borði eða eitthvað slíkt. Ekki ég. Ég bæði át og borðaði þegar ég var krakki og sé ekkert að því. Fólk étur (nú, eða etur, það er víst mun hátíðlegra að taka kommuna af) í Biblíunni og öðrum virðulegum ritum. Og í hundrað ára gömlum matreiðslubókum etur fólk alveg óspart, Jóninna Sigurðardóttir er til dæmis með uppskrift að eftirrétti sem heitir Ettu mig! Með upphrópunarmerki og allt, bara eins og í Séð og heyrt.
Dýrin á mínu bernskuheimili átu reyndar alltaf en hér á forlaginu er köttur sem á það alveg til að sitja við matarborðið með öðru starfsfólki þegar hann nærir sig, ergó hann borðar. Og ég sé svosem ekkert að því að það sé talað um í smábarnabókum að dýr borði. Það er miklu krúttlegra orð. Eins þegar fólk er að tala um krúttlegu gæludýrin sín eða persónugera dýr eins og nú er mikill plagsiður, þá borða þau gjarna. Ekkert að því.
Svo náttúrlega er það þetta með blessaða ísbirnina. Mér er alveg hundsama hvort þeir drápust eða dóu (fyrir mér drápust þeir náttúrlega en ég er ekki nógu krúttlega sinnuð). Bara á meðan þeir létust ekki, eins og hundurinn hennar Tori Spelling sem ég las um í einhverju blaði í gær. Hann lést víst í hárri elli.
Það eru nú takmörk.