Rjómatertublíða
Sveimér ef ætlar ekki bara að vera framhald á góða veðrinu. Jæja, þokkalega veðrinu; það er svosem ekkert ofurhlýtt nema í skjóli. Og engin rigningarspá nema ef vera skyldi á norðausturhorninu. Það er nú óvenjulegt og það rifjast upp fyrir mér tuðið í blessuðum einkasyninum á 17. júní fyrir 5 árum. Mikið varð hann glaður þá þegar hann reyndist hafa rétt fyrir sér - eða þannig.
Ég frétti að barnið sem ég var að baka þjóðhátíðartertu fyrir ætli að fara í bæinn með vinkonu sinni eftir vinnu. Líklega búin að steingleyma öllum áformum um að koma í kaffi til ömmu. Svona fer þetta gjarna, vinirnir freista meira en gamla fólkið og tertur þess, ég verð örugglega alein og yfirgefin í ellinni. Búhú. Og dóttursonurinn á kvennafari úti í garðinum heima hjá sér. Þar á hann nefnilega forláta fótboltamark sem gerir mikla lukku meðal nágranna á hans aldri, stúlkna jafnt sem drengja. Svo ætlar hann í bæinn að fá blöðru og fána og snuð.
Einkasonurinn var ekki viss hvort hann kæmi, sagðist búinn að leggja málið í nefnd. Svo að líklega verð ég að éta alla tertuna ein.