Björgólfur, ísbirnir og strútar (og rollur)
Ókei, Björgólfur Thor búinn að redda málinu með bangsa og ætlar að borga reikninginn. Vænn drengur, Björgólfur. Dýravinur. Spurning samt hvort æðavarpið á Hrauni er innifalið.
En það virkar víst ekki að fóðra hann á snúðum úr Sauðárkróksbakaríi eins og ég lagði til, þá vilja Danir ekki taka við honum. Enda fullvíst að það yrði stöðugt ísbjarnarennerí á Krókinn ef þeir kæmust á bragðið.
Ég var í Nóatúni áðan að kaupa mér kindafillet í þjóðhátíðarmatinn. Rak augun í strút í kjötborðinu (ekki heilan) og ákvað að kaupa mér eina sneið. Ekki í staðinn fyrir filletið, ónei, svo óþjóðleg er ég ekki að ég hafi strút í matinn á 17. júní - neinei, þá dugir ekkert annað en rammíslensk rolla - en hann verður í kvöldmatinn, sem er með seinni skipunum. Þó ekki af því að ég sé að horfa á fótbolta. Var að hugsa um að grilla strútinn en það tekur því ekki að hita grillið fyrir eina litla sneið. Svo að hún fer bara á pönnuna. Mínútu á hvorri hlið við hæsta hita, ætli það dugi ekki fínt? Með salati og einhverju grænmeti sem ég finn kannski í ísskápnum ef ég leita vel.