Gleðilega þjóðhátíð
Á eftir hringir örugglega ungur maður og syngur hástöfum án þess að heilsa: ,,Hæ, hó, jibbíjei ..." Það gerði hann í fyrra allavega.
Ég er búin að lofa bakarísstarfskraftinum að það verði til kaka ef hún kemur í kaffi eftir vaktina í bakaríinu - einhver kynni nú að halda að kaka væri það sem bakarísstarfskraft langaði síst í og það mætti rifja upp gamla máltækið um að gefa bakarabörnum brauð - en það er aukaatriði. Hún vill köku og þá bakar amman köku. Alveg sama hvort barnabarnið borðar hana eða ekki. Svoleiðis eru alminlegar ömmur.
En það verður þá allavega sautjándajúníkaka á boðstólum um kaffileytið, ef einhver skyldi eiga leið hjá. Og pönnukökur sennilega.
Ég á allavega egg til að baka köku. Það er meira en Hraunsbangsi, sem er víst búinn með öll eggin í æðarvarpinu og kominn niður í fjöru í ætisleit.
Ojæja.