Óstrauvæn sjónvarpsdagskrá
Ekki sat ég nú ein að tertunni og pönnukökunum þegar til kom.
Hingað kom meðal annars ungur maður sem sagði mér dapur í bragði þegar ég setti tertuna á borðið að hann borðaði ekki rjómatertu (ég var ekki búin að baka pönnukökurnar þá). Ég fékk hann til að smakka. Hann fékk sér einn bita, sagði: -Hef ég einhvern tíma sagt þér, Nanna, að þú ert snillingur? - og borðaði þrjár stórar sneiðar. Minnti mig á frænda sinn, einkason minn, hann átti nokkrar svona snarvendingar í matarsmekk ...
Ég hef ekkert nennt í bæinn og á svosem ekki von á að það verði héðanaf. Hef heyrt eitthvað í lúðrasveitum og svoleiðis í fjarska og á vafalaust eftir að heyra eitthvað af fylliríslátum þegar líður á kvöldið og nóttina. Ætli ég láti það ekki duga. Dagurinn hefur aftur á móti farið í skúringar og tiltekt, bakstur og spjall við gesti og í kvöld er ég að hugsa um að strauja. Allavega ef ég finn eitthvað á einhverri sjónvarpsstöð sem mig langar að horfa á meðan ég strauja. Á RÚV er Geir Haarde og fótbolti. Hvorugt er nú að gera sig vel við strauingar svo að það er spurning hvort eitthvað strauvænt er á norrænu stöðvunum. - Kannski gerist líka eitthvað spennandi í stóra ísbjarnarmálinu ...