Kápudómar
Réttindastofa Forlagsins er hér í næsta bás og þar er þessa stundina verið að taka upp úr kassa nýkomnar útlenskar útgáfur bóka sem réttindastofan hefur með að gera: Manden i søen, sem er nú tiltölulega einfalt að sjá hvað er, enda kápan sú sama og á íslensku útgáfunni, og Vražda v televisi, sem er kannski aðeins erfiðari, enda fer smekkur Íslendinga og Tékka í bókarkápugerð ekki saman ef dæma skal af bókinni.
En það er nú ekkert einsdæmi. Þegar við erum að gefa út þýðingar á erlendum metsölubókum skoðum við gjarna kápur sem notaðar hafa verið í ýmsum löndum þar sem bókin hefur komið út og þær geta verið vægast sagt ólíkar; svo ólíkar að erfitt væri að ímynda sér að sama bókin væri á ferðinni ef maður vissi það ekki. Og þær höfða vægast sagt misjafnlega til manns. Stundum er líka flottasta kápan kolröng fyrir einmitt þessa bók; eða maður situr og horfir á kápu sem manni finnst óspennandi eða hallærisleg eða bara hreint út sagt ömurleg en bókin hefur samt selst í bílförmum í útlandinu með þessari kápu og maður veltir fyrir sér hvort eitthvað sé í henni sem hreinlega virkar ekki á Íslendinga ...
Don't judge a book by its cover, er sagt á ensku. Pþvu, ef einhver færi eftir því væri lífið einfaldara í bókaútgáfunni.