Dýrt? tja ...
Ég grillaði lambalæri í kvöldmatinn. Ekki slæmt. Með kartöflugratíni, sveppajafningi og salati. Lítið læri en það var samt heilmikill afgangur þótt allir (nema reyndar börnin) tækju vel til matar síns.
Ég hitti fólk í Nóatúni sem var steinhissa á því að ég væri með læri á miðvikudegi. -Við kaupum eiginlega aldrei læri, það er svo dýrt, sögðu þau. Greinilega svolítið hneyksluð á bruðlinu í mér. Og það í miðri viku.
Ég sagði ekkert. En það vill til að ég veit að þau panta pítsu fyrir fjölskylduna á hverjum föstudegi og stundum oftar. Kostar með tilheyrandi aldrei meinna en 3000 krónur og oft töluvert meira. Lærið kostaði 2900 (úr kjötborðinu - ég hefði örugglega getað fundið það ódýrara, allavega frosið). Jú, og kartöflurnar og hitt einhverja hundraðkalla til viðbótar. En samt ... Og afgangurinn ætti að duga í eitthvert góðgæti á morgun, hann er það mikill. Fjárhirðaböku, biximat, eitthvað slíkt.
Dýrt? Jújú, lambakjöt er dýrt. En það er fleira dýrt svosem.