Erfðir og íþróttir
Barnabarn númer eitt fór norður í Skagafjörð í gær með Grím amtmann í farteskinu. Ég á ekki von á öðru en að hann fái góðar móttökur þar, Norðurreiðin löngu gleymd.
Svo tók hún hlaupaskóna, það á eitthvað að hlaupa fyrir norðan þótt hún sé að koma aftur á morgun. Ég þarf víst ekkert að nefna það að allan þennan íþróttaáhuga hefur hún ekki frá mér eða móður sinni, hann er trúlega al-enskur. Afi hennar í Newcastle var jú í breska frjálsíþróttalandsliðinu á sínum tíma þótt hann hafi seinna orðið þekktari á öðrum vettvangi.
Ég er hins vegar efins um að stúlkan eigi eftir að leggja ritstörf fyrir sig þótt föðurafi hennar og móðuramma hafi gert það.