(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

22.6.08

Berbrjósta á Grettisgötunni

Á svona dögum sakna ég nú pínulítið svalanna á Kárastígnum. Að vísu var sól á norðursvölunum mínum snemma í morgun en þetta er líka lengsti dagur ársins eða þarumbil. Ég hringdi einmitt áðan í einkasoninn til að gá hvort hann kæmi í kvöldmat og þá sátu hann og hans ektakærasta úti á svölum og spiluðu eitthvert spil sem hann sagði að amma hans hefði kennt þeim. -Man ekki hvað það heitir, svolítið eins og Scrabble nema með teningum, sagði hann.

Hmm. Mögulega dómínó, það getur verið að móðir mín lumi á því eins og fleiru. En henni væri svosem trúandi til að hafa kennt þeim eitthvert harðsvírað teningaspil.

En allavega, hann ætlar að koma í kvöldmat og það þýddi að ég þurfti að rölta upp í Nóatún að kaupa aðeins meira. Og þegar ég kom í sólina úti á Grettisgötunni sá ég að ég þarf engar svalir. Ég get bara gert eins og nágrannakona mín, kona ríflega á mínum aldri, sem hafði komið sér fyrir á klappstól á gangstéttinni og sat þar berbrjósta og sólaði sig og las reyfara.

Ég var nærri snúin við til að fara að dæmi hennar - viss um að ég með mínar beru og skjannahvítu F-skálajúllur mundi nú aldeilis taka mig vel út hérna fyrir framan húsið og ég á einmitt nokkra ólesna reyfara - en svo hætti ég við.

Ég mundi nefnilega að ég á engan klappstól.

|