Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

21.6.08

,,Út að borða" með Heklu

Ég spurði bakarísstarfskraftinn, sem var aftur hjá mér í kvöld vegna keppnisferðalaga bróður síns og föður, hvort ég ætti að elda kjúklinginn sem er í ísskápnum eða við færum út að borða.

Hún vildi fara út að borða. -Ég ákvað kvöldmatinn í gær svo þú átt að ráða núna, sagði hún.

-Við getum náttúrlega bara farið á Reykjavík Pizza Company, það er styst, sagði ég.

En hún sagðist hafa fengið pítsu í fyrrakvöld og vildi eitthvað annað núna. Svo að við löbbuðum af stað niður Laugaveginn. Ég benti á næstum hvert einasta veitingahús á leiðinni og spurði hvernig henni litist á það. Hún hafði eitthvað á móti þeim öllum. Ég spurði hvert hún vildi þá fara.

-Mér er alveg sama, sagði hún.

-Eigum við að fara hingað? spurði ég og benti á næsta veitingahús.

-Nei, ég hef borðað þarna og maturinn var ekkert góður, sagði hún.

Við héldum áfram.

-Hvernig mat viltu? spurði ég.

-Ég veit það ekkert, sagði hún. -Förum bara á einhvern stað, alveg sama hvern, og ég skoða matseðilinn og panta bara eitthvað.

-Fínt, eigum við að athuga hérna? spurði ég og benti á næsta veitingahús.

-Neeei, mér líst ekkert á það, sagði hún.

Á endanum nefndi ég veitingahús sem hún samþykkti. Við fórum þangað. Það var lokað fram á mánudag.

Þá vorum við komnar niður í bæ. Hún samþykkti með semingi að fara bara á Hressó en þegar kom að dyrunum stoppaði hún og benti mér hróðug á að við yrðum þá að fara út eftir hálftíma þar sem hún væri ekki orðin 22 ára.

Við gengum aftur upp Laugaveginn. Ég benti á þá fáu staði sem ég hafði ekki nefnt í fyrri ferðinni og nokkra aðra aftur. Enginn þeirra hlaut náð fyrir augum hennar. Samt var henni alveg sama hvert við færum.

Á endanum vorum við komnar aftur upp að Reykjavík Pizza Company.

-Eigum við? spurði ég.

-Alveg eins bara, sagði barnið.

En við enduðum á að labba í tvær mínútur í viðbót, á Devitos, þar sem við fengum okkur pitsu til að taka með heim á Grettisgötuna.

Ég er ekki viss um að ég bjóði henni út að borða á næstunni. Lokun Indókína hefur óneitanlega orðið til þess að skapa ákveðin vandamál á því sviði; annars hefði þetta ekki verið nein spurning.

|