Næstumþvíheimsmeistaratitilvörn
Það er ekki bara Sauðargæran sem er að keppa þessa helgina. Faðir hans, uppáhaldstengdasonurinn, er úti í Kaupmannahöfn á miklu kaffiþingi og á morgun keppir hann þar á heimsmeistaramótinu í kaffismökkun; við vonumst auðvitað eftir að honum takist að minnsta kosti að verja silfurverðlaunin sem hann vann í fyrra og helst að hann komi heim með heimsmeistatitilinn náttúrlega. Heimsmeistari í kaffismakki, það væri nú ekkert slor.
Og ég sem er alin upp á gulum Braga.
Boltastelpan er hérna hjá mér þar sem mamma hennar er uppi á Skaga að fylgjast með frækilegri frammistöðu sonarins á fótboltavellinum (þeir eru allavega búnir að vinna einn leik) og ég var að reyna að spana hana í að við skelltum okkur út á völl í nótt, tækjum fyrstu vél til Kaupmannahafnar og mættum sem klapplið fyrir pabba hennar í keppninni á morgun. En hún þarf víst að mæta á vakt í bakaríinu og þetta er samviskusöm stúlka svo að hún tekur ekkert vel í hugmyndina.
Svo það verður líklega ekkert af því.