Útlendingavæn nöfn
Mörgum útlendingum þykir skírnarnafnið mitt skrítið en það hefur þó ekki valdið mér vandræðum í samskiptum við þá. Ég notaði hinsvegar gjarna styttri útgáfu af föðurnafninu þegar ég var að skiptast á bréfum við erlenda útgefendur og umboðsmenn á Iðunnarárunum og skrifaði mig bara Rögnvaldar; sleppti -dóttir. Hitt þótti nógu erfitt.
Ýmsir vinnufélagar mínir heita aftur á móti fornöfnum sem eru erfiðari fyrir útlendinga og hafa brugðist við því; ég sá áðan liggja tvö bréf hér fyrir handan, annað stílað á Siggu Gunnarsdóttur og hitt á Úu Matthíasdóttur. Sigþrúður og Hólmfríður eru reyndar ekki heppilegustu nöfnin til að heita þegar maður stendur í miklum útlandaviðskiptum.
Einkasonurinn hefur reyndar oft skammað mig fyrir að hafa látið sig heita nafni sem enginn útlendingur getur tekið sér í munn skammlaust. Þótt það sé bara sex stafir. Pþvu, hann getur þá bara notað hitt nafnið sitt, þeir hljóta að ráða við að segja Rögnvaldur ...