Óluð í rúminu
Ég var svo syfjuð í gærkvöldi að það munaði engu að ég sofnaði án þess að setja á mig svefnrannsóknagræjurnar sem ég var þó búin að hafa mikið fyrir að nálgast. Þrjár ólar utanum skrokkinn á mismunandi strategískum stöðum, hólkur uppá puttann með leiðslu í tæki sem fest var við eina ólina og svo eitthvert dippidútt sem var stungið upp í nasirnar og pípur leiddar úr því í sama tæki og tyllt með límböndum á kinnarnar. Leiðslur þvers og kruss um mig alla. Ég leit örugglega út eins og ég væri á leiðinni í eitthvert meiriháttar partí með Guðmundi í Byrginu. Whatever.
Ég svaf samt ágætlega. Eða ekkert verr en venjulega. Fór svo og skilaði tækinu (með viðkomu í Kópavogi, nema hvað) og bíð svo bara eftir að svefnrannsóknadoktorinn hringi í mig og segi mér að ég sé með kæfisvefn.