Hvítasunnupartí
Það er greinilega mjög fjörugt partí í gangi hjá einhverjum nágrönnum mínum. Diskómúsik á fullu og allt. Mér er persónulega hundsama því að ég er ekki að reyna að sofna (augljóslega) og ekkert að fara til þess alveg strax - en ég verð kannski annarrar skoðunar ef partíið er enn í gangi eftir svona klukkutíma.
Annars átti ég afskaplega ljúft hvítasunnukvöld; fékk níu manns í mat (borðstofuborðið rúmar einmitt tíu manns) og við gæddum okkur á hangikjötstætingi (reyndar leifar af Þorláksmessulærinu, sem ég fann í frystinum á dögunum) með þurrkuðum ávöxtum, skötusel með tómat-kaperssósu og svörtum tómötum, andabringu með ratte-kartöflum, butternut-kúrbít, portobello-sveppum og granateplafræjum og heitri súkkulaðiköku og panna cotta úr hvítu súkkulaði með hindberjasósu. Ekki slæmt. Meira að segja börnin fengust til að smakka á flestu og dóttursonurinn kláraði skötuselsbitann sinn þótt hann hefði í fyrstu gefið háværar yfirlýsingar um að hann ætlaði sko ekki að borða neinn fisk. Panna cotta-ið leist honum aftur á móti svo illa á að hann var byrjaður að hrylla sig áður en hann rak tunguna í það.
Hmm, það er enn sama fjörið í partíinu.