Stærðfræði, peningar og barnabörn
Ég er að reyna að kenna dótturdótturinni stærðfræði. Það er disaster eins og allir geta ímyndað sér sem vita eitthvað um stærðfræðiþekkingu mína. Aðallega er ég að reyna að útskýra fyrir henni að ef maður lítur á dæmi og fyrsta hugsunin er ,,þetta er svo erfitt" (án þess að vera búin að lesa dæmið í gegn, hvað þá annað), þá komist maður hvorki lönd né strönd - en þetta er náttúrlega hálfglatað frá upphafi og sannfæringarkrafturinn lítill því að ég var nákvæmlega svona á hennar aldri.
Og er enn.
En bara þegar stærðfræði er annars vegar, til allrar hamingju.
Við erum reyndar sammála um að útreikningur á einhverjum myndavélapixlum sé tilgangslaus (nema maður sé með ljósmyndaáhuga kannski) en útreikningur á vöxtum og afborgunum af skuldabréfum og slíku afar gagnlegur. Þegar ég var á hennar aldri var aðalnámsefnið í stærðfræði aftur á móti útreikningur á forvöxtum á víxlum. Ákaflega gagnlegt á sínum tíma, reyndar, en frekar tilgangslaust núna. Eru víxlar annars til ennþá? Það er allavega aaaaafskaplega langt síðan ég hef séð svoleiðis. Næstum eins langt og síðan ég skrifaði síðast ávísun.
Hvaða fjármálareikning ætli þurfi að kunna þegar hún verður fullorðin? Reyndar er að styttast í það - en hvað um bróður hennar? Ætli hann þurfi nokkuð að vita um skuldabréf og þess háttar þegar þar að kemur?