Dauður í annað sinn
Held ég sé ekkert að skrifa minningargrein um Charlton Heston; hann var ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér og þegar ég ætlaði að fara að rifja upp einhver leikafrek hans fyrr í dag fór ég alltaf að hugsa um söguna sem Halla Linker sagði af því þegar hann lá brennivínsdauður á klósettinu hjá henni. En núna er hann víst alvörudauður.
Aldrei þessu vant er ég langt komin að pakka niður þótt ég sé ekki að fara út fyrr en á þriðjudagsmorgun. En það er nú bara af því að ég réðist á þvottafjallið í gærkvöldi með straujárn að vopni og kláraði að strauja hálfan annan helling á meðan ég horfði á Barnaby lögregluforingja í danska sjónvarpinu. Og notaði tækifærið og setti sumt beint ofan í tösku í staðinn fyrir að láta það hafa viðkomu uppi í skáp. Ég get alveg verið skynsöm af og til.
Ég á meiraðsegja ekkert eftir að gera neitt rosalega mikið áður en ég fer. Jú, eina Fréttablaðsgrein og einn eða tvo Nóatúnspistla og lesa yfir nokkrar uppskriftir og fleira - en annars er ég bara í góðum málum.
Þar til annað kemur í ljós.