Ljótir kommúnistar, rauðrófur og rauðar bleyjur
Það er verið að leggja lokahönd á endurbætur á húsnæði Forlagsins og nú er komið að því að hengja myndir upp á veggi, en af þeim er töluvert til, bæði ýmiss konar listaverk frá JPV og Eddu og svo auðvitað gömlu kommúnistarnir úr fórum Máls og menningar. Ég mætti manni hér áðan með mynd sem hafði átt að hengja upp hjá honum en honum þótti ekki nógu falleg, vildi fallegri kommúnista. Ég var algjörlega ósammála og hefði örugglega tekið viðkomandi kommúnista upp á mína arma ef ekki væri búið að úthluta mér stórri rauðrófumynd í minn bás (frekar rússneskt kannski en þó komið frá Englandi). En þetta leystist nú og kommúnistanum var fundinn virðulegur staður.
Annars er ég með fáeinar litlar myndir fyrir á veggnum hjá mér; barnabörnin, ég og Tony Bourdain á barnum og Sean Connery á rauðu bleyjunni, nema þar sem myndin er svarthvít sést ekki að hún er rauð, því miður.