Kjólfötin rifna utanaf forsetanum ...
Það er svosem ekkert nýtt við það að fyrirtæki kaupi auglýsingar í blöðum og tímaritum og láti dulbúa þær sem fréttir eða umfjöllun. Eftirfarandi birtist í Dagblaðinu (því fyrsta) í desember 1905, undir fyrirsögninni Símskeyti, sem gjarna var höfð á merkilegum fréttum frá útlöndum, því þá komu fréttir með ritsímanum og þurfti ekki að leita þær uppi á fréttavef Jyllands-Posten eins og Mogginn gerir núorðið:
,,Forseti Bandaríkjanna var að fara í sparifötin sín í fyrrakvöld, því hann átti að vera svaramaður yngri dóttur sinnar, en þegar hann fór í kjólinn, þá rifnaði hann eftir endilöngu bakinu. ,,Ekki er þetta frá Thomsen," sagði hann, ,,þið hafið svikið mig illa núna og pantað fötin í Washington. Jeg vil nú ekki þurfa að tyggja það oftara í ykkur, að ég vil ekki sjá föt frá öðrum en Thomsens Magasíni í Reykjavík."
(tek fram að í klausunni er ýmist skrifað jeg eða ég)
Í sama blaði auglýsir vefnaðarvöruverslun Egils Jakobsen að hver sá sem kaupi vörur fyrir 3 krónur fái ókeypis einn aðgöngumiða að kvikmyndasýningum í Breiðfjörðshúsi.
Nei, það er fátt nýtt undir sólinni.