Klámsófinn fjölgar sér
Ég kom við á DV í hádeginu. Sýndist ég sjá þar blessaðan klámsófann, sem svo kallaðist löngum og lengi flæktist á milli deilda hjá Fróða, en Reynir upplýsti að sófinn hefði fjölgað sér (ekki skrítið kannski miðað við nafnið) og þeir væru orðnir fleiri þarna í húsinu. Það þótti mér sérkennilegur smekkur reyndar; ég hef séð fallegri sófa.
Einu sinni vorum við á Gestgjafanum með þennan sófa á básnum hjá okkur á matarsýningu í Kópavogi (sófavalið tengdist ekki staðsetningu sýningarinnar í sjálfu sér) og ég þurfti oftar en einu sinni næstum að bíta í tunguna á mér af því að ég var alveg að því komin að bjóða einhverjum áhugasömum gestum að fá sér sæti í klámsófanum. Það hefði nú farið laglega með orðstír minn sem tiltölulega pennar og próper miðaldra konu. - Eða hef ég ekki þann orðstír annars?