Lent í ýmsu - eða ekki
Menn eru að lenda í öllum sköpuðum hlutum þessa dagana.
Ég fór nú að hugsa mín mál og komst að því að einn minn helsti galli er að ég hef lent í svo sorglega fáu um dagana.
Ég hef aldrei lent í framhjáhaldi, til dæmis. Ekki skattsvikum heldur. Og bara eiginlega engum afbrotum. Ekki í dópneyslu og eiginlega ekki í drykkju heldur nema mjög hóflegri. Ekki í ósannindum og baktjaldamakki svo orð sé á gerandi. Lenti kannski í smávegis andlegum mótbyr en hann var vægur og það er langt síðan.
Ég hef eiginlega ekki lent í neinu nema - ja, óléttu á unga aldri og svona. Lenti svo í ekkert voðalega hamingjusömu hjónabandi en það er löngu búið. Seinna lenti ég í bókaskrifum en það er nú varla teljandi fram.
Ég hef augljóslega ekki næga lífsreynslu, hef ekki lent í nógu mörgu. Spurning hvort ég ætti að fara að gera eitthvað í því.