Matreiðslubókakort
create your own visited country map
or check our Venice travel guide
Þetta eru að sjálfsögðu ekki löndin sem ég hef komið til, þau eru sorglega fá. Neinei, þetta eru lönd sem ég á matreiðslubækur frá.
Ég miða við að ég eigi bók sem er eingöngu um landið eða í örfáum undantekningartilvikum þar sem tekin eru saman 2-3 lönd og ég veit ekki til þess að til sé nein matreiðslubók sem er eingöngu um landið og er á máli sem ég skil eitthvað í.
Eðlilega eru stærstu götin í Afríku. Ég er búin að leita mikið á liðnum árum að bókum frá sumum löndunum þar, veit í einstöku tilvikum af bókum en hef aldrei fundið eintak (sumar er ég búin að vera með árum saman á ,,wants" lista hjá Abebooks). Þær koma kannski einhverntíma.
Mið-Asía hefur líka verið erfið, og fáein lönd í Rómönsku-Ameríku. Svo ýmis örsmá eyríki í Karíbahafi og Kyrrahafi. (Ég á samt tvær matreiðslubækur frá St. Kitts & Nevis.) En þetta kemur allt á endanum, ég var til dæmis að enda við að finna bók frá Hondúras sem ég er lengi búin að vera að leita að. Moldova er eina Evrópulandið sem er stærra en fimmeyringur sem vantar þarna inn á. Jú, og reyndar Svartfjallaland þótt það sé á kortinu - forritið er bara eldra en sjálfstæði Svartfellinga.
En ég á svosem bækur með uppskriftum frá langflestum landanna sem mig vantar. Meira að segja eru nokkrar uppskriftir frá Pitcairn-eyju í Maoríamatreiðslubókinni minni.
Og ef einhver skyldi einhverntíma eiga leið til lands sem vantar þarna inn á kortið, þá má hafa mig í huga ...