Októberpaella
Ég dró fram stóru paellupönnuna mína, setti hana á wokbrennarann á eldavélinni og bjó til afbragðsgóða paellu. Án saffrans reyndar; gagnlega barninu er í nöp við saffran. Við vorum reyndar bara fjögur og þar af borðaði Sauðargæran næstum ekkert (nema ísinn sem var í eftirmat) – en það gerði ekkert til, það var þá bara meira handa okkur hinum. Og það er smáafgangur. En það tekur því ekki að gera lítinn skammt af paellu.
Út af fyrir sig má setja nokkurn veginn hvað sem er í paellu og ef við hefðum verið fleiri hefði ég kannski notað krækling úr frystinum og meiri kjúkling - en þetta var fínt svona.
Paella með kjúklingi og kindakjöti
75 ml ólífuolía
2 laukar
5 hvítlauksgeirar
6 kjúklingaleggir
nýmalaður pipar
salt
300 g kindalundir
100 g chorizopylsa
250 g sveppir
500 ml arborio-hrísgrjón
1 rósmaríngrein
2-3 timjangreinar
1 l vatn, og meira eftir þörfum
400 g tómatar, vel þroskaðir
100 g spergilkálskvistir
100 g sykurbaunir
grænu blöðin af nokkrum vorlaukum
nokkur basilíkublöð
50 ml af olíunni hitaðir á paellapönnunni og afgangurinn á annarri þykkbotna pönnu. Laukurinn og hvítlaukurinn látinn krauma við meðalhita á paellapönnunni þar til hann er glær og hrært öðru hverju. Kjúklingaleggirnir kryddaðir með pipar og salti og brúnaðir vel við góðan hita á hinni pönnunni í afganginum af olíunni. Kindalundirnar skornar í bita, kryddaðar og einnig brúnaðar. Chorizopylsan skorin í bita og sett á paellupönnuna ásamt sveppunum; látið krauma smástund. Þá er hrísgrjónum hellt á pönnuna og hrært þar til þau eru þakin olíu. Rósmaríni og timjani bætt á pönnuna. Vatnið hitað að suðu og hellt á pönnuna (best að hella dálitlu af því á pönnuna sem kjúklingurinn og kindakjötið var steikt á og hella svo yfir grjónin). Kjúklingur og kindakjöt sett á pönnuna og tómatarnir skornir í báta og dreift yfir. Látið malla nokkuð rösklega en hrært sem minnst og helst ekkert seinni hlutann af suðutímanum en heitu vatni bætt við eftir þörfum. Látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og grjónin meyr (20-25 mín). Vökvinn á svo til allur að gufa upp og grjónin eiga helst að brenna dálítið við botninn (skorpan (socarrat) er besti hlutinn af paellunni). Það má svosem alveg hræra oft ef ykkur líst ekki á að fá skorpu en allavega á paellan ekki að vera blaut. Um 6 mínútum áður en hún er tilbúin eru spergilkálskvistirnir settir út í, sykurbaunir og vorlaukur þegar um 2 mínútur eru eftir og basilíkunni er svo stráð yfir þegar paellan er borin á borð.