Kvöldverður að hætti Erlendar
Í gærkvöld var veisla út í Frankfurt þar sem hátt í 30 erlendum útgefendum Arnaldar Indriða (ásamt náttúrlega Arnaldi sjálfum og sendinefnd Eddu/Forlagsins) var boðið upp á þjóðlegar íslenskar og þýskar kræsingar, mjög í anda Erlendar frekar en Elínborgar. Meðal annars sviðasultu og harðfisk, auk einhverra þýskra delíkatessa. Ég hef ekki haft af því fréttir hvernig útlendingunum líkaði þetta.
Mér var ekki boðið, sem á sér þá ofureðlilegu skýringu að ég er alls ekki úti í Frankfurt, heldur sit yfir próförkum hér heima. Dröslaði meiraðsegja einni með mér heim til að lesa í kvöld. En þegar ég var í búðinni áðan stóðst ég ekki mátið og keypti mér sviðasultu og harðfisk og hangikjöt og flatbrauð.
Erlendur hefði kunnað að meta kvöldmatinn minn.