Poppað kaffi og ástamál ungra drengja
Dóttursonurinn kom áðan í mat ásamt fjölskyldu sinni. Ég spurði hann hver væri kærastan hans núna.
-Æi, ég man það ekki, sagði hann.
-Ha, manstu það ekki?
-Sko, ég man ekki hvað hún heitir.
En svo rifjaðist þetta nú upp fyrir honum. Náttúrlega þegar umskiptin eru tíð og stundum fleiri en ein kærasta í einu, þá getur nú verið erfitt að hafa bókhald yfir þetta.
Svo setti drengurinn kaffikvörnina af stað áður en ég hafði náð að tæma úr henni nokkur poppkorn sem höfðu dottið ofan í hana þegar hellt var úr poppkornspottinum. Nú þarf ég að hreinsa kvörnina vandlega svo ekki verði poppbragð af kaffinu næstu daga.
Poppkornspotturinn, sem ég er nýbúin að kaupa í Góða hirðinum, vakti annars mikla hrifningu hjá barnabörnunum. Hann er með sveif sem snúið er á meðan poppið poppast svo ekkert brennur við. Boltastelpan fékk sitt popp í sérstaka skál og mokaði þvílíku magni af salti yfir það að ýmsir hefðu fengið áfall við það eitt að sjá til hennar. En þetta gerir hún að læknisráði þar sem hún er með of lágan blóðþrýsting og á að háma í sig salt og lakkrís eins og hún getur. Þar sem hún borðar ekki nammi verður víst saltið að duga.