Heilt og hálft fæði
Ekki held ég að það sé nein frétt fyrir okkur sem bjuggum á heimavist MA fyrir rúmum 30 árum að vistarbúar þurfi að vera í fullu fæði. Kannski er búið að vera annað fyrirkomulag í millitíðinni, ég veit það ekki. En ég flutti einmitt af vist í 5. bekk af því að ég fékk ekki að vera í hálfu fæði - ég var þá byrjuð á sjókokkanámskeiði sem var 4 eða 5 kvöld í viku og borðaði náttúrlega þar svo að ég hafði ekki efni á að borga tvöfalt. Svo að ég leigði mér úti í bæ og var bara í hádegismat í mötuneytinu. Fékk fæðispeningana sem ég var búin að borga endurgreidda að hluta hjá Skinna ráðsmanni.
Það var nokkuð stór hópur sem var bara í hádegismat en aðeins einn sem ég man eftir að hafi tekið þann kost að vera bara í kvöldmat og þótti svo sérstakt að hann gekk gjarna undir nafninu Kvöldmaturinn.