Ostur og reikningslist
Ég var að reyna að setja inn komment á þessa færslu en það var alveg sama hvað ég reyndi, stærðfræðin mín fékkst ekki samþykkt - ef ég sagði að 10+0 væri 10 eða 7+8 væri 15 eða 6+3 væri 9 kom alltaf ,,sorry, your math skills do not seem ..." eða eitthvað. Hmm.
En hér er færslan allavega.
Fetaostur var reyndar upprunalega yfirleitt gerður úr sauðamjólk og er það reyndar enn þótt geita- og kúamjólk sé einnig notuð.
Grikkir háðu fetastríð innan Evrópusambandsins í meira en áratug sem lauk með því að Evrópudómstóllinn úrskurðaði 25. okt. 2005 að feta-heitið mætti einungis nota um ost framleiddan á ákveðnum svæðum í Grikklandi, úr grískri mjólk og með ákveðnum aðferðum.
ES- og EES-þjóðir fengu smáaðlögunartíma en eftir (að mig minnir) 15. okt. nk. mega ostar framleiddir utan Grikklands ekki heita feta. Hvort íslenskir framleiðendur - Mjólkursamsalan og Mjólka - sleppa með að kalla ostana sína Dalafeta, Léttfeta o.þ.h. á eftir að koma í ljós.
Ég talaði um þetta í útvarpsþætti (Víðsjá) í sumar og benti þá einmitt á til skýringar á viðhorfi Grikkja að það væri ekki víst að Íslendingum stæði á sama um að það yrði farið að markaðssetja einhverjar mjólkurafurðir undir heitinu skyr - eins og nú hefur komið á daginn.