Kona á tímamótum
Ég held að það sé komið að vatnaskilum í lífi mínu.
Ég byrjaði nefnilega áðan að horfa á Bráðavaktina. Gafst upp eftir fimm mínútur og slökkti. Í fyrsta skipti í - hvað, fjórtán ár? Og ég sem er búin að horfa á svotil hvern einasta þátt (ef ég er á landinu) og fræðast mjög um barkaþræðingar og rifjaglennur. En, eins og einmitt barst í tal í vinnunni í morgun - það hefur held ég aldrei verið minnst á til dæmis þvagleggi í Bráðavaktinni. Þeir eru líklega ekki nógu sexí. Öfugt við barkaþræðingar og rifjaglennur.
En nú er ég semsagt að hugsa um að hætta þessu.
Já, ég veit. Ég á mér ekkert líf.
Sem var einmitt það sem ég hugsaði þegar ég las umsögnina um mig í blogggrein Mannlífs, sem Gurrí færði mér þegar hún kom í mat áðan: Þessi kona á sér ekkert líf.
Og nú er ég komin í mótsögn við sjálfa mig því hvernig geta orðið vatnaskil í því sem ekkert er ...?
Best ég hætti áður en ég fer að verða heimspekileg. Það fer mér ekki.