Tilraunastarfsemi í ísskápum
Það er eiginlega kominn tími á að gera eitthvað við ísskápinn í vinnunni. Veit samt ekki alveg hvort einhver er að gera svona tilraun þar.
Skápurinn er þó hátíð hjá ísskápnum á Iðunni forðum daga. Ég man að einu sinni sá ég að ekki yrði lengur dregið að fara í allsherjarhreingerningu á honum þegar ég rakst á poka sem ég vissi að tilheyrði manneskju sem var hætt fyrir 11 mánuðum.
Það var lifrarpylsa í honum.
Einkasonurinn, sem þá var ungur (ca. 9 ára) og áhugasamur um ýmis vísindi var nýbúinn að eignast smásjá sem hann vantaði sárlega eitthvað til að skoða í. Ég benti honum á að þarna væri nú ýmislegt til að stúdera. Hann stakk nefinu inn í skápinn og sagði neitakk.
Eftir þetta tók ég að mér að þrífa ísskápinn af og til og setti einfalda reglu: Ég hendi öllu sem er komið meira en tvo mánuði fram yfir síðasta söludag eða er orðið grænt. Eða kemur sjálft á móti manni þegar skápurinn er opnaður.
Fín regla.