Tepokablogg
Ég ætlaði að skrifa eitthvað um rigninguna.
En svo datt mér eiginlega ekkert í hug að segja nema ,,það rignir".
Og það væri einhvernveginn eins og þegar Tryggvi skólameistari stöðvaði Þórhall sem var á harðahlaupum eftir gangi heimavistar MA til þess eins að segja við hann ,,þú hleypur".
Svo að ég held að ég láti það vera. Enda hætti að rigna um leið og ég setti punktinn. í bili allavega.
Í staðinn ætla ég að nöldra yfir einkasyninum, sem fann loksins reykgrillið mitt úti í skúr á Kárastígnum fyrir svona hálfum mánuði og er búinn að ætla að koma með það svo til daglega síðan. Það bólar ekki á neinu grilli enn. Ég hef ekkert grillað í allt sumar.
Og nú er semsagt komin rigning.