Lost in sæberspeis
Já, ég er búin að fá amerísku bókina um sögu kalkúnans sem ég nefndi hér á dögunum. Sé að höfundurinn þakkar mér sérstaklega í formála en notar reyndar ekki upplýsingarnar sem ég sendi honum - hann virðist hafa hætt við að hafa kafla um kalkúnamatreiðslu um víða veröld eins og til stóð. Þannig að ég fyrirgef honum alveg að hafa ekki sent mér eintak.
Reyndar ætlaði hann víst að senda mér bók í fyrra þegar hún kom út en hafði ekki heimilisfangið mitt og eingöngu Fróða-netfangið - en allt sem þangað var sent eftir að ég hætti lenti jú einhvers staðar í sæberspeis eins og ýmsir hafa komist að. Sérstaklega Gulli Haralds (ritstjóri MA-æviskránna), sem var víst búinn að senda mér bæði auðmjúk bónarbréf og harðorð hótunarbréf, sem auðvitað hrinu ekki á mér því að ég fékk þau aldrei.
Ég reyndi að muna eftir öllum sem ég hafði verið í sambandi við síðustu árin og láta þá vita af breytingunni. En maður getur aldrei munað eftir öllum.
Og svo eru náttúrlega allir milljarðarnir sem ég er búin að erfa eftir einhverja frændur í Afríku og öll hollensku ríkishappdrættin sem ég er búin að vinna og allar Nígeríusummurnar sem ég er búin að missa af af því að tilkynningarnar fara á vitlaust netfang ...