Afslættir, strekkingar og rautt hár
Fór í jarðarför í morgun og hitti slatta af ættingjum sem maður hittir aldrei núorðið nema við jarðarfarir.
En veðrið var fallegt. Elinborg í Dal spurði Guðmund lýtalækni eins og venjulega hvort hún fengi ekki afslátt hjá honum út á mægðir. Hann sagði að það væri varla hægt annað en að gefa góðan afslátt á svona fallegum degi. Ég var að hugsa um að notfæra mér það á staðnum og díla við Gimma um einhverja klössun en það strandaði á því að ég var ekki viss um hvaða strekkingu eða minnkun ég ætti helst að fara í. Auk þess liggur satt að segja meira á að klassa upp eldhúsið en mig.
Í staðinn fékk ég góðan afslátt seinnipartinn þegar ég keypti barnabókina Litla rauðhærða stúlkan af Auði Haralds og Vigdísi teiknara fyrir utan Kjörgarð. Þann afslátt fékk ég reyndar út á alla mína rauðhærðu ættingja. Og að vera ekki eins og allir. Held ég.