Hrakfallabálkurinn
Vesalings dóttursonurinn sannaði það enn einu sinni í gær að eitthvað hefur hann erft frá ömmu sinni - utanviðsigháttinn allavega - með því að ganga rakleiðis á opna bílhurð þegar hann ætlaði að fara með foreldrum sínum á landsleikinn og fá lóðréttan skurð á mitt ennið. Mér skilst að það hafi blætt svo mikið á hann og móður hans í bílnum á leiðinni á slysavarðstofuna að fólk sem var fyrir á biðstofunni hafi allt að því þurft áfallahjálp eftir að hafa séð þau koma inn alblóðug.
Eftir fjögur spor í ennið - hann skældi ekkert þegar hann var deyfður og sagði að sig hefði kitlað undan saumnálinni - var hann þó svo brattur að hann fór á völlinn, náði síðasta korterinu af leiknum eða svo og einum tveimur mörkum. Þetta er nagli. Allavega þegar fótbolti er annars vegar.
Og ég fékk enn eina sönnun fyrir því að ég er örugglega með einhvers konar Asperger.