Vitlaus spurning
Á föstudagskvöldið vorum við nokkur á gangi á Strandgötunni á Akureyri á leið á Vélsmiðjuna. Þá koma til okkar tveir ungir Selfyssingar.
-Eruð þið héðan? spurði annar.
-Nei, sagði ég.
-Oh, fjandinn, sagði drengurinn.
Þeir gengu samferða okkur nokkurn spöl út Strandgötuna. Þá mættum við hópi ungmenna.
-Eruð þið héðan? spurði drengurinn aftur.
-Já, svöruðu þau.
-Frábært, sagði drengurinn glaður. -Vitiði hvar Sjallinn er?
Þeir hefðu nú getað sparað sér nokkra göngu í vitlausa átt ef þeir hefðu byrjað á að spyrja þeirrar spurningar. Ég rataði aldrei vel um Akureyri og þekki fá kennileiti þar eftir þrjátíu ár en sumt breytist aldrei.