Baltimore
Við fermingarbarnið áttum góða daga í Baltimore, sem mér fannst nú meira notalegur smábær en stórborg - það er að segja sá hluti borgarinnar sem við héldum okkur í að mestu - en ég var nú ekkert að láta þess getið fyrirfram við móður barnsins að þetta er ein mesta glæpaborg Bandaríkjanna og þar eru framin sexfalt fleiri morð miðað við fólksfjölda en í New York. Allavega vorum við mjög áhyggjulausar og Boltastelpan rak harðan áróður fyrir því í gær að við framlengdum dvölina.
Við héldum óvart upp á afmæli stúlkunnar eftir einhvers konar misskilning við eftirréttapöntun sem leiddi til þess að hópur af þjónum mætti með fagurlega skreytta köku og söng Happy Birthday to You - hún á ekki afmæli fyrr en í nóvember en það var ekki hægt að gera þjónagreyin afturreka með kökuna og Boltastelpan sá auk þess í þessu færi á að kría aukaafmælisgjöf út úr ömmu sinni. Sem auðvitað tókst.
Maturinn? ekkert sérlega eftirminnilegur en af stöðunum sem við borðuðum á vorum við hrifnastar af Jimmy's Restaurant í Fells Point - ekta svona ,,down home greasy spoon"-búlla þar sem allt var á fullri ferð og hreinlætið ekkert yfirþyrmandi.
Veðrið var gott, hótelið þokkalegt, stressið nákvæmlega ekkert af því að við vorum ekki sérstaklega í verslunarferð og slepptum því að taka leigubíl í eitthvert risamoll og eyða heilum degi þar (eða tveimur) - fundum enda flest sem við höfðum hug á að kaupa í miðbænum. Nema Boltastelpan fann hvergi sprautubrúsaost en við fórum reyndar aldrei í neina almennilega matvörubúð. Bara á Lexington Market, þar sem við áttuðum okkur á eftir nokkra stund að við vorum einu hvítu manneskjurnar á svæðinu. Eða svo gott sem.
Þetta var afbragðsferðalag og ég held að Boltastelpan hafi verið ánægð með fermingargjöfina sína.