Páskamáltíðin
Páskamatseðillinn: Tómatsúpa með papriku, basilíku og parmesanflögum; grillaður humar með hvítlauk og steinselju; lambalæri (steikt í þrjú korter, látið standa á hlýjum stað í klukkutíma, sett aftur í ofninn í korter) með portobello-sveppum, sykurbaunum, brúnuðum kartöflum (fyrir Heklu) og salati; súkkulaðibúðingur með berjum. Bara ekkert slæmt. Við drukkum nú bara afgangsvín úr afmælisveislunni með, það var ekkert slæmt heldur.
Barnabörnin vildu náttúrlega ekki sjá tvo fyrri réttina frekar en ég bjóst við en borðuðu þá seinni með bestu lyst og Sauðargæran kom til mín á eftir og spurði um uppskriftina að súkkulaðibúðingnum. Man nú ekki eftir að það hafi gerst fyrr.
Ég, gagnlega barnið, einkasonurinn, uppáhaldstengdasonurinn og frænkurnar tvær sem voru í mat sátum svo lengi að spjalli eftir matinn. Sauðargæran horfði á körfubolta í pólska sjónvarpinu inni í stofu en systir hans sat við borðið með okkur og pússaði silfur af miklum móð. Ég lofaði henni að næst þegar ég ætti verulega áfallið silfur sem mikið þyrfti að pússa skyldi ég geyma það vandlega handa henni. Aðspurð um hvort henni þætti gaman að pússa silfur harðneitaði hún því en vildi samt ekki fara fyrr en hún var búin að pússa alla servíettuhringina að utan sem innan.
En hér er annars uppskriftin að súkkulaðibúðingnum sem Sauðargæran fékk:
Súkkulaðibúðingur
150 g 70% súkkulaði
150 g suðusúkkulaði
2 msk Cointreau (má sleppa)
6 egg
4 msk sykur
100 ml rjómi
Súkkulaðið og líkjörinn brætt gætilega í vatnsbaði og látið kólna ögn. Eggin aðskilin og rauðurnar þeyttar mjög vel með sykrinum. Súkkulaðinu þeytt saman við smátt og smátt. Hvíturnar stífþeyttar, kúfaðri matskeið hrært rösklega saman við súkkulaðiblönduna og síðan er afganginum af hvítunum blandað gætilega saman við með sleikju. Rjóminn stífþeyttur og blandað gætilega saman við með sleikju. Búðingnum hellt í skálar/ská og látinn standa í kæli í a.m.k. 2 klst. Skreyttur með berjum (ég notaði rifsber, kívíber skorin í tvennt og jarðarber).