Gleðilegt nýár
Ég ákvað að vera bara heima í gærkvöldi, þ.e. ég fór í mat til gagnlega barnsins en var komin heim fyrir tíu og eyddi afganginum af kvöldinu alein. Það var mjög notalegt.
Best af öllu var þegar það rann allt í einu upp fyrir mér að ég þurfti ekki að horfa á áramótaskaupið. Og þar af leiðandi ekki hafa skoðun á því.
Um miðnætti sat ég í þægilegum stól undir dúnsæng, las í bók, borðaði fjandi góðan Stiltonost með rúsínubrauði og drakk gott púrtvín með.
Afskaplega gott gamlárskvöld.
Já, og gleðilegt nýár, öllsömul. Ég var að reyna að skrifa áramótapistil í gær en Blogger var í óstuði og leyfði mér ekki að birta neitt. Kannski bæti ég úr því seinna í dag.