Gleðileg jól
Hangikjötslærið komið í steikarpottinn, potturinn fylltur af köldu vatni og kominn á tvær hellur á eldavélinni, hellurnar á tæplega hálfum straum og bráðum fer hangikjötsilminn að leggja um íbúðina. Svo á ég bara eftir að setja rauðkálið í pott og búa til ís og þá get ég plantað mér í sjónvarpsstólinn og horft á skíðastökkskeppni í snjólausum Ölpunum eða eitthvað.
Ég rölti niður á Laugaveg áðan eins og ég geri alltaf á aðfangadagsmorgni. Það er stemmning þá líka, bara allt öðruvísi en á Þorlák, og maður sleppur við allar lúðrasveitirnar og sönghópana og kátu jólasveinana og allt þetta. Reyndar átti ég ekkert erindi nema að kaupa brauð í Sandholt til að hafa með reyktu andabringunni og andalifrarkæfunni. Ætli ég sjóði svo ekki kannski gráfíkjusultu með og svo er náttúrlega Weinbach Vendanges Tardives Pinot Gris 2002-flaskan sem ég keypti í Alsace í vor ...
Aðalrétturinn verður Bambi. Nánar tiltekið hjartarlundir, brúnaðar á pönnu og kláraðar í ofni. Með villisveppasósu, rauðkáli og tvenns konar kartöflum (fjölskyldan er ekki samstíga í kartöflumálunum). Gljáðum sykurbaunum og kannski einhverju öðru grænmeti, þarf að velta því aðeins fyrir mér. Vínið sjá gagnlega barnið og uppáhaldstengdasonurinn sennilega um, annars á ég líklega eitthvað sem passar vel.
Og svo verður heit súkkulaðikaka með tvílitum súkkulaðiís á eftir - eða ís með köku, eftir því hvernig á málin er litið. Fjölskyldan er ekki samstíga þar heldur.
Þorláksmessuveislan tókst auðvitað vel að vanda. Reyndar komu ívið færri en stundum áður, hvort sem það er vegna staðsetningar, veðurs eða annars - en þeir sem komu hljóta að hafa tekið þeim mun hraustlegar til matar síns, allavega eru afgangar með minnsta móti. Þið sem ekki komust gátuð séð í Ísland í dag af hverju þið misstuð - eða getið séð það á netinu núna.
Ég á ábyggilega eftir að kíkja eitthvað á netið seinna í dag þannig að það má reyna að senda mér neyðarfyrirspurnir varðandi matargerðina ...
En annars bara: Gleðileg jól.