Það á ekki af mér að ganga
Ég er bara greinilega ekki á réttum stað í tilverunni. Ekki nóg með að ég versli aldrei við Dómínós og missi þar af leiðandi af jólakveðju, heldur bý ég ekki í Hafnarfirði og fæ því ekki Bó frá Alcan.
Mér finnst þetta súrt. Er ekki eitthvert reykvískt stórfyrirtæki sem vill senda aumingja litlu mér eitthvað? (KB-banki, sem er víst ekki lengur til, telst ekki með því að jólagjöfin frá þeim var frekar misheppnuð - ég er samt enn að spá í hvort ég geti ekki fundið einhver not fyrir hana, af því að ég er svo jákvæð manneskja.) Mér finnst til dæmis að Nóatún hefði átt að senda mér jólagjöf af því að ég seldi hamborgarhrygginn þeirra (sem er bara ljómandi góður af hamborgarhrygg að vera) svo vel. Kannski fæ ég nýárs-SMS frá þeim, það er ekki öll von úti enn.
En ég er svosem ekkert að óska eftir Bó neitt sérstaklega, ekki misskilja mig. Ég fékk síðasta eða næstsíðasta diskinn hans gefins og hann er enn í plasti.
Hugsanlega vegna þess að ég á ekki geislaspilara.