Tímarit fyrir sérvitringa
Ég var spurð í kommenti við færsluna hér að neðan hvort ég hefði ekki fengið vel borgað fyrir greinina. Það var satt að segja í fyrsta skipti að ég held sem einhverjum hefur dottið greiðsla í hug.
Þetta hefti er helgað minningu góðvinar míns og læriföður og það var þess vegna sem ég var beðin um að skrifa grein. Sá maður gaf sjálfur út tímarit í yfir 20 ár sem var virt um allan heim af áhugafólki um matarmenningu og matarsögu. Það kom út þrisvar til fjórum sinnum á ári og greinarhöfundar voru fræðimenn, kokkar og áhugamenn úr öllum heimshornum. Sumir heimsfrægir. Mikill metnaður var að baki útgáfunni og geysileg vinna lögð í hana. ,,Always, the standard of publication quality was exceptional, and the literary voices that came to life were unique and subtle," segir í nýlegri umsögn um tímaritið. Samt var aldrei neinn gróði af útgáfunni, enda kaupendahópurinn takmarkaður við ákveðinn hóp sérvitringa. Þetta var áður en matur komst í tísku. Því var þetta hugsjónavinna af hálfu allra sem lögðu hönd á plóginn.
Á öllum þessum tíma gerðist það aðeins einu sinni að höfundur færi fram á - og fengi - greiðslu fyrir framlag sitt. Það var Íslendingur.