Góðir og vondir kallar
Jamm, allt fór þetta nú einhvernveginn. Ekkert sem kom verulega á óvart og Reykjavík fór alveg eins og ég átti von á. Ekki síst eftir drauminn í fyrrinótt ...
Barnabörnin gistu í nótt. Sauðargæran vaknaði klukkan fimm mínútur yfir fimm og spurði hvort væri kominn tími til að horfa á barnamyndir. Ég gat svæft hann aftur. Hann vaknaði aftur klukkan sex mínútur yfir sex og spurði um barnamyndir. Ég sagði honum að halda áfram að sofa og var farin að sjá mynstur í þessu. En hann vaknaði ekki aftur fyrr en tuttugu mínútur yfir níu, til allrar hamingju.
Svo að nú sitjum við inni í stofu og horfum á He-Man. Mikið fjör. Allavega hjá drengnum. Einhvernveginn er nú lífið einfaldara þegar heimurinn skiptist alfarið í góðu og vondu kallana. Nema akkúrat í þessari mynd þurfa Garpur og Beini að vinna saman gegn sameiginlegum óvini. Það ruglar alveg heimsmyndina hjá drengnum.
Pólitíkin var líka einfaldari hér áður fyrr.