Nánari upplysingar á bakhliðinni
Það var hengd upp tilkynning á útihurðina í gær um að það yrði skrúfað fyrir kalda vatnið hér í götunni fyrir hádegi í dag. Allt í lagi með það, nema neðst í horninu stóð með pínulitlum stöfum (svo litlum að miðaldra konur sem eru skyndilega orðnar fjarsýnar sáu það ekki) að nánari leiðbeiningar væru aftan á. Miðinn var auk þess rækilega límdur á með límbandi á fjórum hornum, reyndar á glerrúðu en hún er ógegnsæ, þannig að það var svolítið erfitt að sjá hvað stóð aftan á ...
Svo hringdi nágrannakona mín til mín í vinnuna þegar ég var nýlega komin, var þá búin að taka miðann niður og lesa aftan á og þar kom fram að það ætti að skrúfa fyrir vatnsinntak á uppþvottavélum og þvottavélum. Bauðst svo til að senda manninn sinn að sækja mig þannig að ég gæti komið heim og skrúfað fyrir. Ég þáði það (með velferð nýju þvottavélarinnar minnar í huga), enda ætlaði ég hvort eð er heim fyrir hádegi, það er myndataka hér seinnipartinn og ég þarf að grilla.
Núna er það nefnilega fiðurfénaðurinn. Ég vissi að það væri eitthvað eftir þótt nautið og svínið og lambið væru frá. (Ég er líka búin að grilla kanínu og fleira - en það kemur ekki í blaðinu.)