Fjölbreytt innihald
Jú, það var nú ýmislegt skemmtilegt í þessum pökkum sem ég sótti á pósthúsið í morgun. Nokkrir DVD-diskar: Meira af He-Man and the Masters of the Universe fyrir Sauðargæruna, meira af The Goodies fyrir mig (samt því miður ekki þátturinn um þorskastríðið) og fleira.
Þrír reyfarar sem allir gerast í Rómarveldi hinu forna.
The Nasty Bits: Tony Bourdain í banastuði að úthúða sjónvarpskokkum, Woody Harrelson, grænmetisætum og ýmsu öðru.
The Haggis: A little history eftir Clarissu Dickson Wright (annan helminginn af Two Fat Ladies).
Classic Cooking with Coca Cola. Ég verð einmitt með uppskrift að kóksósu í grillblaði Gestgjafans en þarna fæ ég örugglega fullt af nýjum hugmyndum ...
Og svo tvær þykkar og miklar alvörubækur sem hægt væri að rota mann með, All About Braising eftir Molly Stevens (verður nú kannski ekki notuð mikið fyrr en með haustinu) og Vegetable Love eftir Barböru Kafka. Ég opnaði þá síðarnefndu af handahófi og fyrsta fyrirsögnin sem blasir við er Naked Frying. Það finnst mér nú góðs viti.