Veður sem umræðuefni ... eða ekki
Það voru ansi mörg sýnishorn af veðri í dag. Og ég er einmitt að lesa dálítið skemmtilega bók sem heitir Watching the English og er mannfræðileg stúdía á Englendingum og vangaveltur um hvað er enskt. Mjög skondið oft. Eða eins og höfundurinn segir: ,,Really, I don't see why anthropologists feel they have to travel to remote corners of the world and get dysentery and malaria in order to study strange tribal cultures with bizarre beliefs and mysterious customs, when the weirdest, most puzzling tribe of all is right here on our doorstep."
Eitt af því allra enskasta er einmitt, eins og margir kannast við, að tala um veðrið. En ekki vegna þess að enskt veðurfar sé svo merkilegt eða frásagnarvert. Eiginlega þvert á móti. Veðrið er efni sem hægt er að nota til að brydda upp á samræðum við ókunnuga, til að hefja samræður og nota svona á meðan er verið að koma sér niður á annað umræðuefni og svo er hægt að grípa til þess hvenær sem fólk rekur í vörðurnar og vantar eitthvað að tala um. ,,Admittedly, this allows for rather a lot of weather-speak," eins og höfundurinn segir og bendir svo á að veðrið sjálft skipti kannski litlu máli, en vegna þess að enskt veður er ákaflega breytilegt er stöðugt hægt að grípa til þess sem umræðuefnis. Það sama gildir auðvitað hér á landi þótt við tölum kannski ekki alveg eins mikið um veðrið og Englendingar.
Vegna þess að veðurtal er hjálpartæki fremur en raunverulegt umræðuefni, þá er ætlast til þess að allir séu sammála. Ef einhver segir ,,ansi er hann svalur í dag", þá á að taka undir það. Ef maður segir ,,nei, mér finnst veðrið frekar milt", þá verða samræðurnar stirðar. Aftur á móti er í lagi að segja ,,já, en mér finnst það nú bara hressandi". Ég tala nú ekki um ,,já, en það er þó allavega ekki rigning".
Englendingar sjálfir bölva veðrinu oft í sand og ösku. Aftur á móti er ekki í lagi að útlendingar tali illa um enskt veður, ég tali nú ekki um að þeir geri lítið úr því. Bill Bryson móðgaði t.d. Englendinga þegar hann sagði ,,the most striking thing about the English weather is that there is not very much of it." Ég held reyndar að það gildi ekki hér, Íslendingar taki það ekki sérlega nærri sér þótt útlendingar séu eitthvað að setja út á veðrið. Við vitum jú sjálf best hvernig það er.
Í ljósi af framansögðu ætti að vera ljóst að ég hef ekki margt að segja í kvöld.