Kúskúsið með arganolíunni var loksins í matinn í kvöld, borið fram með tvenns konar kjúklingi. Mér fannst það mjög fínt en Sauðargæran var þó ennþá hrifnari, hann borðaði ekkert annað og ég held að ég hafi bætt fimm sinnum á diskinn hans. Sagði við mig að minnsta kosti þrisvar ,,þú eldar svo góðan mat, amma mín." Smjaðrari.
Á undan var ég með einstaklega einfalda súpu sem drengurinn eldaði undir minni leiðsögn: 2 dósir saxaðir tómatar, 1 krukka meðalsterk salsa (man ekki vörumerkið, fæst í Krónunni), 1 msk villibráðarkraftur (átti reyndar að vera kjúklingakraftur en lokin á dósunum höfðu ruglast svo að við tókum feil - villibráðarkrafturinn kom vel út en hitt hefði virkað líka), slatti af vatni til að þynna, salt. Allt sett í pott og látið malla í svona 10 mínútur. Borið fram með nachosflögum. Kokkurinn borðaði sjálfur flögurnar en fannst súpan of sterk fyrir sig.
Ég held að ég hafi verið að lesa það einhvers staðar um daginn að börn væru alltaf til í að borða mat sem þau hefðu tekið þátt í að elda sjálf. Það er hreint ekki rétt, allavega ekki hvað mína afkomendur varðar. Drengurinn er efni í snilldarkokk en hann er afskaplega matvandur og borðar sjaldnast það sem hann framleiðir.