Við Sauðargæran vorum að ræða fyrirhugaða Kaupmannahafnarferð áðan og ég spurði hann hvort við ættum að taka móðurbróður hans með.
-Nei, svaraði drengurinn strax, -ég held að hann á ekki að koma með.
-Af hverju ekki? spurði ég.
-Af því að hann gæti tekið nefið af mér í Danmörku, sagði Sauðargæran alvarlegur í bragði.
Frændi hans stríðir honum gjarna með því að þykjast kippa af honum nefinu og setur það svo aftur á eftir hávær mótmæli - gjarna skakkt í fyrstu atrennu. Líklega er drengurinn hræddur um að nefið verði óvart eftir í Danaveldi og hann komi heim eins og Tycho Brahe, nema sennilega ekki með silfurnef.
Hins vegar er frændinn búinn að gefa hátíðlegt loforð um að láta nefið á drengnum í friði á erlendri grund svo að líklega fær hann að koma með til Kaupmannahafnar ef hann vill.