Ég var svo ánægð þegar ég var búin að hreinsa syndaregistrið á Borgarbókasafninu í gær að þegar ég hringdi í einkasoninn og komst að því að hann var einn heima bauð ég honum út að borða. Kuldinn gaf tilefni til að fara á Shalimar, þar sem ég fékk mér sambland af grænmetis- og kjötréttum dagsins og hann fékk sér vindaloo - ,,very hot"-versjónina en hálfsá eftir að hafa ekki fengið sér ,,very very hot"-útgáfuna, fannst eitthvað vanta upp á styrkleikann. Tautaði líka eitthvað um að hann hefði nú sjálfur búið til betra vindaloo um daginn. Eða allavega sterkara, sem sumum finnst vera sami hlutur. Hann svitnaði nú samt svolítið á meðan hann borðaði þetta.
Maturinn var fínn. Enda er Harrison Ford nýbúinn að dásama indverska matinn í Reykjavík. Reyndar ekki á Shalimar, enda er maturinn þar meira pakistanskur - en sama er, þetta var ágætt.